Rúmlega tveggja metra háar myndir Kristleifs Björnssonar af leikkonunum Natalie Portman og Parminder Nagra (sparkvissa stúlkan í Bend It Like Beckham) prýða nú veggi Tate Modern-listasafnsins í Lundúnum. Kristleifur hefur þó hvoruga stúlkuna hitt, myndirnar fann hann á internetinu, prentaði þær út í fjölmörgum bútum á A4-blöð og skeytti svo saman.
Myndirnar eru hluti af seríunni My Girls, en það eru fjórar seríur í þeirri seríu, hver tileinkuð einni leikkonu. Hinar stúlkurnar hans Kristleifs eru þær Shannyn Shossamon og Winona Ryder. En hvernig voru stúlkurnar valdar? „Það var frekar flókið ferli, en aðallega fór það eftir mínum eigin smekk á stelpum og því hvaða myndir ég fann af þeim á netinu.“
En hvernig breytist verkið við þessa aðgerð, hvernig verða þessar stolnu myndir hans? „Það að búta þær niður í A4-blöð breytir þeim sjónrænt en það sem breyttist mest er þó konseptið, af hverju ég geri þetta? Þetta fjallar um einsemd, internetið og einsemd, og það stingur kannski mest hvað þetta eru persónuleg verk þótt þau séu tekin af netinu.“