Kanadíska söngkonan Celine Dion ber ábyrgð á því að færa heimsbyggðinni versta ábreiðulag sögunnar. Þetta er niðurstaða könnunar sem framkvæmd var á vegum tímaritsins Total Guitar en þar voru fagaðilar spurðir út í bestu og verstu ábreiðulög sögunnar. Flutningur kanadísku söngspírunnar á AC/DC slagaranum You Shook Me All Night Long, sem söngkonan flutti á tónleikum í Las Vegas fyrir sex árum síðan, þótti vera versta ábreiðulag sögunnar og gekk ritstjóri Total Guitar, Stephen Lawson, það langt að kalla flutning hennar helgispjöll.
Í öðru sæti yfir verstu ábreiðurnar voru svo stúlknasveitirnar Girls Aloud og Sugababes með sína útgáfu á Aerosmith og Run DMC slagaranum Walk This Way. Krúttin í Westlife vermdu síðan þriðja sætið á þessum skammarlista með skelfilegri útgáfu af Extreme laginu More Than Words.
Besta ábreiðan þótti vera útgáfa Jimi Hendrix á Bob Dylan laginu All Along The Watchtower, í öðru sæti voru Bítlarnir með Twist and Shout og í því þriðja var rokksveitin Guns and Roses með sína útgáfu af James Bond-laginu, Live and Let Die. vij