Tónlistarmaðurinn Gary Glitter segist hafa sungið rokk í fjörtíu ár og hann ætli sér að rokka áfram eftir að afplánun lýkur. Hann afplánar nú dóm fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn börnum í Víetnam. Upphaflega var Glitter dæmdur í 3 ára fangelsi en á síðasta ári var dómurinn styttur um 3 mánuði í tengslum við fjöldanáðun fanga til að fagna nýju tunglári. Hann á að losna úr fangelsi í ágúst.
Glitter var fundinn sekur um að hafa misþyrmt tveimur víetnömskum stúlkum, 10 og 11 ára gömlum, kynferðislega. Hann hefur setið í fangelsi frá því í nóvember 2005.
Glitter segist ætla að hafa samband við vini sína og lögfræðinga til þess að ákveða hvar sé best að búa í framtíðinni. Líklegast sé að Hong Kong eða Singapúr verði fyrir valinu.
Meðal laga Glitters sem slógu í gegn á sínum tíma eru I'm The Leader Of The Gang (I Am!) og Do You Wanna Touch Me?
Mjög dró úr vinsældum hans er hann var dæmdur í fangelsi í Bretlandi árið 1999 fyrir að vera með barnaklám í fórum sínum. Eftir að afplánun lauk flutti hann til Kambódíu og síðan Víetnam þar sem hann situr í fangelsi.