„Við erum nýkomin til Pensacola í Flórída og byrjuð að taka upp,“ segir Linda Ásgeirsdóttir leikkona. Hún og Hrefna Hallgrímsdóttir hafa nú skrifað nýtt kvikmyndahandrit fyrir yngstu börnin um ævintýri hinna vinsælu Skoppu og Skrítlu. „Þetta er nýtt handrit og við erum til dæmis byrjuð að taka upp atriði í dýragarðinum hér í bæ og víðar. Svo þegar tökum hérna ytra er lokið förum við aftur heim til Íslands og höldum áfram að taka upp þar.“
Kvikmyndin verður um 50 mínútur að lengd og í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. „Líkt og leikritin um Skoppu og Skrítlu er myndin hugsuð fyrir yngstu áhorfendurna,“ bætir Linda við. Áætlað er að myndin verði sýnd í kvikmyndahúsum landsins í kringum áramótin.
Ljóst er að í nógu er að snúast í íslenskri kvikmyndagerð um þessar mundir. Að sögn Laufeyjar Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, er tökum á kvikmyndunum Brim í leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar nú lokið og sömu sögu er að segja um kvikmyndina Goodheart eftir Dag Kára Pétursson. Þá er verið að vinna að gerð myndarinnar Reykjavík Whale Watching Massacre eftir Sjón í leikstjórn Júlíusar Kemp svo fleiri dæmi séu tekin. „Af fleiri kvikmyndum má nefna gamanmyndina Sumarlandið sem Grímur Hákonarson ætlar að leikstýra en tökur á henni eru ekki enn hafnar. Þá er vinna við kvikmyndina Reykjavík Rotterdam eftir Arnald Indriðason og Óskar Jónasson vel á veg komin og svo er Ólafur Jóhannesson í eftirvinnslu með myndina Hringfarinn,“ segir hún.
Þá eru ótaldar þær heimildarmyndir og sjónvarpsþáttaraðir sem verið er að vinna að um þessar mundir. „Í hópi heimildarmynda má nefna mynd eftir Friðrik Þór Friðriksson um einhverfu en nú sér fyrir endann á þeirri vinnu. Svo ætlar Ríkissjónvarpið að sýna sjónvarpsþáttaröðina Svartir englar í leikstjórn Óskars Jónassonar, sem byggð er á bók Ævars Arnar Jósepssonar, með haustinu en framleiðandi er Saga film.