Nýtt met var slegið er verk eftir franska málarann Claude Monet var selt á 40,9 milljónir punda, 6,7 milljarða króna á uppboði Christie's í Lundúnum í gærkvöldi. Er þetta hæsta verð sem fengist fyrir málverk eftir Monet, samkvæmt frétt BBC. Gert hafði verið ráð fyrir því að verkið, Le Bassin Aux Nympheas, færi á 24 milljónir punda. Ekki er gefið upp hver keypti verkið.
Monet málaði myndina árið 1919 í Giverny í Frakklandi og það hefur einungis einu sinni verið sýnt opinberlega síðustu áttatíu árin.
Í maí var verkið Le Pont du chemin de fer a Argenteuil eftir Monet selt á 20,9 milljónir punda og var það hæsta verð sem greitt hafði verið fyrir málverk eftir Monet þar til nú.