Norska viðskiptaráðuneytinu hefur borist kvörtun frá Þórlindi Kjartanssyni, formanni Sambands ungra sjálfstæðismanna, þar sem fundið er að því að iTunes-verslunin í Noregi hafi neitað að afgreiða Þórlind vegna þess að hann er búsettur hér og reyndi að greiða með íslensku kreditkorti.
Málið snýst þó ekki um að ungir sjálfstæðismenn vilji spila norsk dægurlög á samkomum, heldur vilja þeir koma á frjálsum viðskiptum á netinu með höfundarréttarvarið efni.
„Við teljum ekki að iTunes í Noregi megi hafna viðskiptum frá Íslandi af því Ísland og Noregur eru bæði innan Evrópska efnahagssvæðisins,“ segir Þórlindur, sem segir að EES-samningurinn eigi að tryggja frjálst flæði á vöru og þjónustu. Þegar leyst sé úr þessu álitamáli þurfi síðan að leysa úr því hvort núgildandi reglur um höfundarrétt gangi gegn reglunum um frjálst flæði, hinu sk. fjórfrelsi.
Þórlindur býst við að þurfa að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn, enda er hann ekki vongóður um að vel verði tekið í málið í Noregi. „Það sem við erum að gera með þessu er að búa til grundvöll fyrir málsókn fyrir dómstólnum,“ útskýrir hann. „Internetið og netverslun er það besta sem getur komið fyrir frjálsa samkeppni og neytendur. Það verður að stoppa bæði stjórnvöld og sérhagsmunahópa í að hindra að almenningur njóti góðs af þessari byltingu,“ bætir hann við.