Hinn heimsþekkti knattspyrnukappi Cristiano Ronaldo prýðir flöskur með íþróttadrykknum Soccerade, sem kominn er á markað í Portúgal. Framleiðandi drykkjarins, Soccerade International ehf, er að langstærstum hluta í eigu íslenskra fjárfesta en umboðsskrifstofa Ronaldos er einnig meðal hluthafa. Ronaldo verður andlit fyrirtækisins um allan heim.
Fyrstu flöskurnar komu út úr verksmiðjunni í Portúgal í byrjun mánaðarins og hafa viðbrögð verið mjög góð að sögn Ívars Jósafatssonar, framkvæmdastjóra Soccerade International. Að sögn Ívars eru samningar um framleiðslu og dreifingu á Soccerade í Þýskalandi, Austurríki og Sviss á lokastigi.
Fyrstu Soccerade-flöskurnar koma í verslanir á Íslandi í júlí. Leppin-vörurnar eru framleiddar af sömu aðilum og eru Soccerade-drykkirnir byggðir á formúlu frá Leppin. Stærstu hluthafar Soccerade International ehf. eru í dag Hinriksson ehf., 5k ehf., Trausti ehf., Rolf Johansen & Co., Arnór Guðjohnsen & Eiður Smári Guðjohnsen og umboðsskrifstofa Ronaldos. Eiður Smári mun einnig auglýsa drykkinn og tengja nafn sitt Soccerade.