Uppgefin á næturklúbbum og stefnumótavefjum er 42 ára einstæð móðir í Bandaríkjunum nú farin að leita að ástinni á húsnæðismarkaðinum - og býður hús sitt og hjarta falt á netinu.
Hún heitir Deven Trabosh og á heima á Suður-Flórída. Í heilt ár hefur hún reynt að selja húsið sitt, og í átta ár hefur hún verið einstæð. Nú býður hún áhugasömum að kaupa húsið sitt og kvænast sér um leið.
Hún auglýsti í síðustu viku á eBay og Craigslist: „Viltu kvænast áttavilltri, bandarískri prinsessu?“ Hún segist vera rómantísk og gefin fyrir ferðalög, og að húsið sitt sé glæsilegt, í afgirtu hverfi þar sem er sundlaug og tennisvöllur.
Trabosh er löggildur fasteignasali, en hefur ekki unnið við það í mörg ár, og segist hafa gert sér grein fyrir því að það myndi reynast erfitt að selja húsið eins og fasteignamarkaðurinn sé núna.
En hún fullyrðir að hjónabandstilboðið sé ekki einungis auglýsingabrella.
Ekki hafa henni borist alvöru tilboð enn sem komið er, en hátt í 500 manns hafa skrifað henni, og segir hún langflesta taka vel í uppátækið. Ottie, sem á heima í Surrey á Englandi, sendi tölvuskeyti og sagði: „Þú býður hið fullkomna líf með hinni fullkomnu, bandarísku prinsessu.“
Einnig hefur hún heyrt frá Claudio, ítölskum vín- og ostasmakkara, og hefur skipst á skeytum við hann og vonast þau til að geta hist í Miami eftir fáeinar vikur.
Dætur Trabosh eru ekki alltof hrifnar af þessu uppátæki hennar. Sú eldri, sem er 21 árs, segist sannarlega vona að móðir sín finni ástina, en yngri dóttirin, sem er 14 ára, segist skammast sín fyrir mömmu sína.