Hljómsveitin Abba mun aldrei koma saman á sviði á ný, segja þeir Björn Ulvaeus og Benny Andersson, í viðtali við Sunday Telegraph í dag. Segja þeir einfaldlega ekkert tilefni vera til þess. Hljómsveitin mætti öll við frumsýningu kvikmyndarinnar Mamma Mia í síðustu viku í Stokkhólmi. Meginþema myndarinnar er tónlist hljómsveitarinnar.
„Við viljum að fólk muni eftir okkur eins og við vorum, upprifinn og full af metnaði," segir Ulvaeus í viðtalinu.
Hann segist muna eftir því þegar Robert Plant sagði að Led Zeppelin væri ábreiðuhljómsveit þar sem þeir fluttu ábreiður af eigin tónlist. „Ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið."
Andersson segist furða sig á því hvað lög hljómsveitarinnar hafi lifað lengi. „Þú veist hvernig popp tónlist er. Hún er þegar hún er og við vorum sannfærð um að það sama myndi gilda um okkur."