„Þetta gerist frekar oft hjá tónlistarmönnum, að þeir gleymi hljóðfærum sínum,“ segir Björn Jörundur Friðbjörnsson, meðlimur hljómsveitarinnar Nýdanskrar, sem spilaði á Markaðsdegi Bolvíkinga á laugardaginn.
Aðspurður hvort tónlistarmenn hugsuðu ekki um gítara sína líkt og kærusturnar, svaraði Björn að bragði: „Jú jú, en það kemur fyrir að við gleymum þeim líka!“
Gítarinn er glænýr og af gerðinni Fender Telecaster. „Þetta er amerískur Telecaster, hannaður fyrir rétthenta. Hann var sendur í flug í gær, en það gekk allt vel, þrátt fyrir að hann sé örlítið flughræddur,“ segir Björn, en gítarinn er ekki sá hinn sami og hljómar í laginu Flugvélar.