Þrjár teikningar eftir spænska listamanninn Goya voru seldar fyrir fjórar milljónir punda, 610 milljónir króna, á uppboði hjá Christie's í Lundúnum. Teikningarnar voru taldar týndar þar sem ekkert hafði spurst til þeirra frá því að þær voru seldar á uppboði í París árið 1877.
Ekki er langt síðan einkasafnari í Sviss hafði samband við Christie's og vildi selja teikningarnar þrjár. Teikningarnar eru úr skissubók Francisco Jose de Goya y Lucientes sem hann notaði þrjá síðustu áratugina sem hann lifði. Goya lést árið 1828.