Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, segist vera reiðubúinn að bjóða fram aðstoð sína svo binda megi enda á kjaradeilu leikara og kvikmyndaveranna í Hollywood. Hann segist vilja gera allt til að forðast annað verkfall.
„Ef einhver biður mig um að aðstoða, þá er ég til þjónustu reiðubúinn,“ sagði Schwarzenegger á blaðamannafundi í Los Angeles.
„Það er að mínu mati afar mikilvægt að samkomulag náist svo fljótt sem auðið er. Annað verkfall er það síðasta sem við þurfum á að halda.“
Pattstaða er í samningaviðræðum milli stéttarfélags kvikmyndaleikara í Hollywood (SAG) og kvikmyndaveranna. Þá eru engar viðræður fyrirhugaðar á næstunni.
Alls eru 120.000 félagar í SAG. Stéttarfélagið krefst þess að leikararnir fái meiri tekjur þegar kvikmyndir sem þeir leika í eru gefnar út á DVD-diskum. Þá krefjast þeir að leikararnir hafi meira um það að segja hvernig myndirnar eru kynntir í sjónvarpi.
Samningur þeirra rann út í júlí sl.