Ein vinsælasta kvikmynd ársins í Bandaríkjunum það sem af er ári er teiknimynd, Wall-E. Myndin hefur hlotið einróma lof kvikmyndagagn-rýnenda, fær nánast fullt hús stiga á vefnum Rotten Tomatoes eða 97% sem er hæsta einkunn sem nokkur mynd hefur fengið þar það sem af er ári.
Nú velta kvikmyndaspekúlantar því fyrir sér víða um netheima hvort myndin eigi möguleika á því að hljóta Óskarsverðlaun á næsta ári sem besta myndin, þ.e. ekki besta teiknimyndin, og verði þar með fyrsta teiknimyndin til að hljóta þann heiður. Eina teiknimyndin sem tilnefnd hefur verið í kvikmyndaflokknum er Disney-teiknimyndin Fríða og dýrið, árið 1991.
Myndin segir af sorphreinsunarvélmenninu Wall-E sem eigendur gleymdu að slökkva á þegar þeir yfirgáfu jörðina með mannkyni öllu. Vélmennið heldur áfram störfum sínum í hundruð ára þrátt fyrir að jörðin sé mannlaus enda forritað til þess að hreinsa upp rusl og flokka. Dag einn hittir Wall-E (sem er karlkyns vélmenni) kvenvélmennið EVE og ástin kviknar. EVE áttar sig fljótt á því að Wall-E veit hver lykillinn er að framtíð jarðarinnar og heldur út í geim að tilkynna mönnum það.