Lögreglustjóraembættið í Dubai segir að 79 baðstrandargestir, aðallega útlendingar, hafi verið handteknir á undanförnum hálfum mánuði fyrir að sýna af sér ósiðlega framkomu á nokkrum almenningsbaðströndum.
Talsmaður lögreglunnar segir, að fólkið hafi truflað fjölskyldur, sem vildi njóta útiveru á ströndunum. Ekki var upplýst í hverju hin ósiðlega framkoma fólst.
Þúsundir Evrópu- og Asíumanna búa og starfa í Dubai, sem er eitt af þeim sjö sjálfstjórnarríkjum sem mynda Sameinuðu arabísku furstadæmin. Heimamenn eru hins vegar flestir múslimar af gamla skólanum.