Nýjasta kvikmyndin um Leðurblökumanninn var heimsfrumsýnd í New York í gær. Stjörnur myndarinnar vottuðu Heath Ledger virðingu sína, en Ledger lést sem kunnugt í byrjun ársins.
Frammistaða Ledgers í kvikmyndinni, sem ber heitið The Dark Knight, sem Jókerinn þykir vera með því besta sem hefur sést á árinu, og eru margir sem eru á því að hann muni hljóta Óskarinn fyrir hlutverkið.
„Þetta er besta frammistaða illmennis sem ég hef séð,“ segir leikarinn Michael Caine er hann gekk eftir, að þessu sinni, svarta dreglinum, segir á vef BBC.
Kvikmyndin er tileinkuð Ledger sem lést í janúar. Dánarorsök er sögð vera slys eða afleiðing misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum. Ledger var 28 ára gamall.
„Ég hef á tilfinningunni að hann verði tilnefndur. Ég yrði mjög hissa ef hann myndi ekki hljóta Óskarinn. Hann fær mitt atkvæði í það minnsta,“ segir Caine.
Gary Oldman, sem leikur lögreglumanninn Jim Gordon í myndinni, segist ekki hafa séð illmenni sem þetta síðan Dennis Hopper lék Frank Boot í Blue Velvet. „Þetta hræðir mann meira heldur en Hannibal Lecter.“
Christopher Nolan, leikstjóri myndarinnar, segir að þeir hafi viljað búa til illmenni sem væri hræðilegt og íkonískt, en jafnframt mannlegt. Hann segir að Ledger hafi tekist að gera þetta á áhugaverðan hátt og að fólk eigi eftir að vera mjög hrifið af frammistöðu hans.
Christian Bale, sem leikur Leðurblökumanninn, segir að fólk eigi eftir að muna eftir frammistöðunni um ókominn tíma. „Það er sorglegt að hann skuli ekki vera meðal vor. En ég er hér til að dást af hæfileikum hans og ég vona að allir muni gera slíkt hið sama.“