Dorian Leigh, gjarnan kölluð fyrsta ofurfyrirsætan, er látin, 91 árs að aldri. Ljósmyndarinn David Bailey segir Leigh hafa verið öðruvísi en aðrar fyrirsætur, hún hafi verið fyrsta fyrirsætan í heiminum sem menn þekktu með nafni.
Leigh lést 7. júlí sl. Hún fæddist í Bandaríkjunum 1917 og hóf fyrirsætuferilinn 27 ára. Hún varð m.a. andlit Revlon snyrtivöruframleiðandans í herferðinni Eldur og ís og birtist oft á forsíðu Vogue.
Þekktir ljósmyndarar festu Leigh á filmu á ferlinum, m.a. Irving Penn og Richard Avedon. Þá er talið að hún hafi verið að einhverju leyti fyrirmynd að persónunni Holly Golightly í bók Trumans Capote, Breakfast at Tiffany's.
Að loknum fyrirsætuferlinum setti hún á laggirnar umboðsskrifstofu fyrir fyrirsætur í París sem lögð var niður síðar.
Þá varð hún kokkur og veitingamaður í París, New York og á Ítalíu. Leigh gaf út ævisögu árið 1980 sem heitir The Girl Who Had Everything, Stúlkan sem hafði allt til alls.