Ný kvikmynd um Leðurblökumanninn hefur sett aðsóknarmet í Norður-Ameríku en myndin var frumsýnd þar á fimmtudag. Tekjur af sýningu myndarinnar á fyrsta sýningardegi námu 66,4 milljónum dala, jafnvirði nærri 5,3 milljörðum króna. Er þetta 6,5 milljónum dala meiri tekjur en voru frumsýningardaginn af þriðju myndinni um Köngulóarmanninn, sem frumsýnd var á síðasta ári.
Líklegt er talið að myndin slái einnig frumsýningarhelgartekjumet Köngulóarmannsins, sem var 151 milljón dala.
Myndin hefur fengið afar góða dóma gagnrýnenda, einkum þó frammistaða ástralska leikarans Heath Ledger, sem lést fyrr á þessu ári. Christian Bale leikur aðalhlutverkið eins og í síðustu mynd en einnig leika í myndinni stórstjörnur á borð við Michael Caine, Morgan Freeman, Gary Oldman og Maggie Gyllenhaal. Christopher Nolan leikstýrði myndinni.