Breski leikarinn Christian Bale var handtekinn í Lundúnum í morgun eftir að lögreglunni barst kæra frá móður og systur, sem sögðu að Bale hefði ráðist á þær á sunnudagskvöld. Bale, sem er 34 ára, leikur aðalhlutverkið í nýjustu myndinni um Leðurblökumanninn, sem slegið hefur aðsóknarmet um allan heim.
Breskir fjölmiðlar segja, að mæðgurnar hafi komið á lögreglustöð í Hampshire í suðurhluta Englands og lagt fram kæru á hendur Bale. Segja þær að Bale hafi ráðist á þær á Dorchesterhótelinu í Lundúnum á sunnudagskvöld.
Kæran var send til Lundúnalögreglunnar. Breska blaðið The Sun segir að lögregla hafi ekki viljað handtaka Bale í gær vegna þess, að nýja kvikmyndin var frumsýnd í Lundúnum í gærkvöldi.