Bandaríski spjallþáttastjórnandinn og grínistinn Jay Leno mun stýra sínum síðasta þætti, sem þáttastjórnandi Tonight Show, 29. maí nk. Frá þessu greindu forsvarsmenn NBC-sjónvarpsstöðvarinnar.
Conan O´Brien mun taka við af Leno, sem er 58 ára, strax 1. júní.
Yfirmenn NBC segjast vera að skoða það hvort þeir geti haldið í Leno, sem hefur stýrt Tonight Show frá því hann tók við starfinu af Johnny Carson árið 1992.
„Við eigum enn í viðræðum við Jay um að hann haldi áfram hjá NBC Universal,“ segir Marc Graboff hjá NBC Entertainment.
Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð Lenos frá því NBC greindi frá því fyrir fjórum árum að hann myndi láta af störfum einhvertíma árið 2009. Í nýlegu viðtali við USA Today gaf Leno sterklega í skyn að hans tími hjá NBC væri liðinn.
Aðrar stöðvar eru sagðar sýna Leno áhuga, en þátturinn hefur borið höfuð og herðar í samkeppni við aðra kvöldþætti undanfarin ár.