Breski leikarinn Christian Bale hefur beðið fjölmiðla um að fá frið frá spurningum og umfjöllun um meinta árás hans á móður hans og systur í Lundúnum um síðustu helgi.
Bale, sem er fæddur í Wales, sagði við fréttamenn á Spáni í dag, að um væri að ræða afar viðkvæmt einkamál. „Ég bið ykkur að virða friðhelgi einkalífs míns," sagði hann.
Þetta er í fyrsta skipti sem Bale tjáir sig um málið en Bale er á Spáni til að kynna nýju kvikmyndina um Leðurblökumanninn þar sem hann leikur aðalhlutverkið.