Til slagsmála kom á milli öryggisvarða og dulbúins ljósmyndara sem brutust inn á landareign bandarísku kvikmyndaleikaranna Angelina Jolie og Brad Pitts í Frakklandi um helgina.
Ljósmyndarinn Luc Goursolas, staðhæfir að hann hafi fingurbrotið einn öryggisvarðanna í átökunum og bitið annan til blóðs. Sjálfur segist hann hafa verið barinn í höfuðið með talsstöð auk þess sem sparkað hafi verið í höfuð hans.
„Mér blæddi mikið. Ég réðst á þá, smurði blóði mínu á þá og sagðist vera HIV smitaður til að reyna að fá þá til að hörfa,” segir hann.
Tony Webb, yfirmaður öryggisgæslu hjónanna, staðfestir að Luc Goursolas hafi gengið berserksgang er öryggisverðir fundu hann í húsinu en neitar þó að hann hafi verið barinn og aða sparkað hafi verið í hann.
„Þetta var ekki sanngjarnt,” segir hann og vísar þar til réttinda leikaranna til einkalífs . Þá segir hann ljósmyndarann hafa verið á einkalóð sem honum hafi verið fullkunnugt um að hann mætti ekki vera á. Það hafi m.a. sést á því að hann hafi verið klæddur í feluliti.