Aðstandendur Hinsegin daga 2008 kynntu á Laugaveginum í dag dagskrá Gay Pride hátíðarinnar, sem hefst í næstu viku. Eins og undanfarin ár hefur fjöldi áhugaverðra listamanna verið fenginn til hátíðahaldanna sem spanna fimm daga.
Af þeim erlendu listamönnum sem fram koma má nefna fransk-þýska poppbandið alræmda Stereo Total sem gerði mikla lukku þegar það kom fram á Hinsegin dögum 2002. Kanadíska söngstjarnan Carol Pope ætlar einnig að leika listir sínar en hún er margverðlaunuð í heimalandi sínu fyrir tónlist sína.
Swivel er hljómsveit skipuð ungum Kaliforníubúum undir pönk- og nýbylgjuáhrifum og Andreas Constantinou grískur söngvari og söngvaskáld sem lekur hráa rokktónlist með hljómsveit sinni.
Þá eru ótalinn danski vísnasöngvarinn Martin Knudsen sem heillað hefur margan upp úr skónum með söng sínum og norsku sjónvarpsstjörnurnar glettnu og fjörugu Ruth og Vigdís.
Palli, Maríus og Haffi
Friðrik Ómar, Regína Ósk og Euro Bandið taka lagið á útihátíð Hinsegin daga við Arnarhól og Hera Björk Þórhallsdóttir djassdíva sömuleiðis. Maríus Sverrisson söngleikastjarna kemur til landsins til að taka þátt í opnunarhátíð Hinsegin daga og einnig syngja Elín Eyþórsdóttir og Myrra Rós Þrastardóttir en Natthawat verður með dans og söngvaatriði.
Eru þá ótaldir lagasmiðurinn Haffi Haff og kóngurinn sjálfur, Páll Óskar en Palli stýrir fjörinu á aðaldansleik Hinsegin daga að kvöldi laugardagsins 9. ágúst á NASA.