Nýjasta kvikmyndin um Batman var mest sótta myndin í kvikmyndahúsum vestanhafs um þessa helgi, þriðju helgina í röð. Nema tekjur af myndinni nú tæplega 395 milljónum dollara á sautján dögum, og er búist við að hún fari yfir 400 milljóna markið eftir einn til tvo daga, sem verður nýtt met.
Dan Fellman, yfirmaður dreifingardeildar Warner Bros, framleiðanda myndarinnar, segir að fari myndin yfir það mark á 18. eða 19. degi slái hún met Shrek2, sem náði því marki á 40. degi eftir frumsýningu.
Batmanmyndin hefur þegar slegið tekjumet á fyrstu sýningarhelgi, en þá seldust miðar á hana fyrir rúmar 158 milljónir dollara.