Frægustu börn heims, tvíburarnir sem Angelina Jolie og Brad Pitt eignuðust fyrir þremur vikum, voru „frumsýnd" á netinu í gær þegar tímaritið People birti þar mynd af forsíðu næsta blaðs. Á myndinni sjást hinir stoltu foreldrar með afkvæmin, sem nefnast Vivienne Marcheline og Knox Leon. 19 myndasíður verða í blaðinu, sem kemur út í dag.
Foreldrarnir og börnin eru hvítklædd á myndinni. Á annarri minni mynd sést Shiloh, 2 ára dóttir þeirra Pitts og Jolie, halda á litlu systur sinni.
Haft er eftir Jolie, að fjölskyldan búi í frönsku sveitasetri. Þar sé mikil óreiða en allir skemmti sér konunglega.
Þau Pitt og Jolie eiga nú alls sex börn en þrjú eru ættleidd. Jolie eignaðist tvíburana á sjúkrahúsi í Nice. Mikill fjöldi ljósmyndara sat um sjúkrahúsið en engum tókst að ná myndum af börnunum eða foreldrum þeirra.
Myndirnar, sem People birtir, voru teknar á vegum Getty Images. People keypti birtingarréttinn í Norður-Ameríku en breska slúðurtímaritið Hello! keypti birtingaréttinn á öðrum heimssvæðum. Þau Jolie og Pitt hafa sagt, að tekjurnar af myndatökunni verði látnar renna til góðgerðarmála.
Ekki hefur fengist staðfest hve mikið tímaritin greiddu fyrir myndirnar en orðrómur er um að upphæðin sé um 14 milljónir dala, jafnvirði um 1,1 milljarðs króna.