Tekjur af nýju Batman-myndinni náðu 400 milljónum dollara á aðeins átján dögum, og hefur engin mynd náð þessu marki áður á svo skömmum tíma, að sögn sölustjóra Warner Bros, dreifingaraðila myndarinnar.
Í gærkvöldi námu tekjur af sýningum á myndinni í Bandaríkjunum 400,03 milljónum dollara.
Jeff Goldstein hjá Warner sagði, að myndin hefði náð þessu marki á innan við helmingi skemmri tíma en sú mynd sem áður átti þetta met, Shrek 2, en hún náði „fjögurhundruð milljóna-markinu“ á 43. degi.
Í dag nær The Dark Knight væntanlega sjöunda sætinu á listanum yfir þær myndir sem mestum tekjum hafa skilað, og ýtir þá fyrstu Spider-Man myndinni niður í áttunda sætið.