„Þetta var bara smá pus!"

Bakkafjara getur verið viðsjárverð.
Bakkafjara getur verið viðsjárverð.

„Þetta var bara smá pus," sagði Henry Erlendsson, bassaleikari hljómsveitarinnar Loga, en hann og þrír félagar hans úr hljómsveitinni lentu í sjónum við Bakkafjöru í Landeyjum á mánudagmorgun þegar verið var að ferja þá með gúmbáti úr björgunarskipi og í land.

Ekki var hægt að fljúga milli lands og Vestmannaeyja á sunnudag vegna þoku og eftir að Logarnir og Bubbi Morthens, sem áttu að skemmta á lokakvöldi þjóðhátíðar, höfðu ásamt fleirum beðið á Bakkaflugvelli var ákveðið að fá björgunarskip úr Vestmannaeyjum til að sigla með fólkið til Eyja. Notaður var gúmmíbátur til að flytja fólk úr Bakkafjöru í björgunarskipið. Sami háttur var hafður á morguninn eftir þegar skemmtuninni í Herjólfsdal var lokið.

Þá var sjólag við Bakkafjöru hins vegar erfitt. Þegar verið var að flytja Bubba, Pál Magnússon, útvarpsstjóra, og fleiri í land, rakst skrúfan á gúmbátnum í sandrif um 200 metra frá landi þannig að það drapst á mótornum. Bubbi segir á spjallborði á vef sínum, að þrjár brimöldur hafi riðið yfir og gúmbáturinn hafi fyllst af sjó, en áður en stærri brotsjóir riðu yfir tókst að koma mótornum aftur í gang og sigla undan hættunni. Bubbi bætir við, að þetta hafi verið ógnvekjandi reynsla og hann hafi verið skelfingu lostinn.

Í næstu gúmbátsferð voru þeir Henry og bræðurnir Helgi og Hermann Ingi Hermannssynir  í Logum fluttir í land. Þá vildi ekki betur til en svo að gúmbátnum hvolfdi í lendingunni í fjörunni og allir fóru í sjóinn.

Henry þvertekur fyrir að þeir hafi verið í mikilli hættu enda skammt frá landi. „Maður bara hristi sig þegar maður kom upp úr," sagði hann. Allir voru í björgunarvestum. 

Ólafur Bachmann, trommuleikari Loganna, var ekki með í þessari svaðilför en segist hafa það fyrir satt, að orðið hafi uppi fótur og fit þegar félagar hans birtust í flugstöðinni á Bakkaflugvelli, blautir og með sandstorkið hár og skegg. „Eftir þetta liggur beint við að breyta um nafn á hljómsveitinni og kalla hana Beach Boys," sagði Ólafur.

Henry sagði að hann hefði verið andvígur því að gera höfn í Bakkafjöru og þetta atvik hefði síður en svo breytt þeirri skoðun hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar