Rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins á dauða leikarans Heath Ledgers er lokið, og verður enginn ákærður. Ledger lést af of stórum skammti lyfseðilsskyldra lyfja í janúar, en hafði ekki fengið þau gegn lyfseðili á eigin nafni.
Beindist rannsóknin að því hvernig Ledger hefði komið höndum yfir lyfin, en um var m.a. að ræða kröftug verkjalyf, Oxycontin og Vicodin, auk kvíðastillandi lyfja.
Vinkonu Ledgers, Mary-Kate Olsen, var send stefna í apríl, þar sem hún var boðuð fyrir rannsóknarkviðdóm, en ekki kom til þess að hún yrði kvödd til.
Lögmaður hennar sagði í yfirlýsingu að hún hefði ekki átt neinn þátt í að útvega Ledger lyfin, og hefði veitt yfirvöldum allar upplýsingar sem hún gæti vegna málsins.