Skipuleggjendur tónleika með Eric Clapton, sem fara fram í Egilshöll annað kvöld, hvetja tónleikagesti til að gefa sér tíma og sýna þolinmæði. Hefur aðkomu í kringum höllina verið skipulögð og bílastæði merkt. Um er að ræða einn fjölmennasta tónlistarviðburð sem haldinn hefur verið á Íslandi, að sögn tónleikahaldara.
Undirbúningur undir tónleikana hefur staðið frá því á síðasta ári en nú er allt að smella saman. Unnið hefur verið í Egilshöllinni að uppsetningu hljóðkerfis, sviðs og ljósabúnaðar frá því í síðustu viku en sérstök flutningavél flutti m.a. 12 tonn af búnaði til landsins gagngert fyrir þessa hljómleika. Von er á Clapton sjálfum til landsins í dag.
Egilshöll verður opnuð kl. 18 á tónleikadag. Ellen Kristjánsdóttir, sem mun hita upp fyrir Clapton, fer á svið kl. 20 og Clapton hefur leik klukkan 21. Uppselt er fyrir löngu á A-svæði tónleikanna en miðar eru enn til á B-svæði. Sviðið í Egilshöll er sérstaklega hannað þannig að allir eiga að geta fylgst með því sem þarf fer fram. Tveimur stórum skjám hefur verið komið fyrir þannig að ekkert ætti að fara fram hjá þeim þúsundum tónleikagesta sem leggja leið sína í Egilshöllina á föstudaginn. Miðasala er á midi.is og í völdum BT og Skífubúðum um allt land. Verði ekki uppselt í forsölu verða miðar seldir á tónleikadag í Egilshöll.