Angela Stokes kom til Íslands árið 2002 í þeim tilgangi að taka þátt sjálfboðaverkefni á Sólheimum, þá 24 ára. Þrátt fyrir ungan aldur var líkamlegt ástand hennar slakt. Hún hafði frá barnæsku aukið jafnt og þétt við þyngd sína, borðað óholla fæðu í óhófi og var orðin afar þung eða um 140 kg. „Ég var alltof feit, alltaf þreytt, orkulaus, geðvond og alltaf veik eða slöpp,“ sagði hún.
„Ég var líka alltaf reið og sár,“ bætir hún við. „Búin að gefast upp á sjálfri mér og möguleikanum á grönnum og hraustum líkama og reiðin, afneitunin, særindin og þunglyndið sem fylgdi líkamlegu ástandi mínu litaði líf mitt. Ég sá það ekki fyrr en eftir breytinguna, hversu lítið og fúlt líf mitt var. Ég lifði í vörn.
Þrátt fyrir að ég ætti augljóslega við offituvandamál að stríða þá átti ég afar erfitt með að vera nærri fólki sem talaði um offitu og ofát, megrun og fleira. Ég lét sem ekkert væri en þegar ég var ein brotnaði ég niður og fór yfir samtöl og athugasemdir fólks tímunum saman af þráhyggju. Velti mér upp úr áliti annarra og uppgjöf minni. En án þess að gera nokkuð sem skipti máli. Ég var sem lömuð. Þóttist kannski gera eitthvað frá degi til dags en þær breytingar og tilraunir til betra lífs voru alltaf til skamms tíma og einfaldlega alls ekki nógu stórtækar til að vinna á offitu minni.“