Bræðrabylta, stuttmynd Gríms Hákonarsonar, er á meðal 30 stuttmynda sem eru tilnefndar til Iris-verðlaunanna. Stuttmyndir sem fjalla um samkynhneigð eru tilnefndar til verðlaunanna, sem eru veitt árlega í Cardiff í Wales.
Bræðrabylta, sem fjallar um tvo samkynhneigða glímukappa, hefur átt góðu gengi að fagna á erlendum kvikmyndahátíðum að undanförnu. Hún var valin besta stuttmyndin á Philadelphia International Gay & Lesbian Film Festival nýverið og hlaut áhorfendaverðlaunin á Palm Springs Gay & Lesbian Film Festival.
Myndin keppir m.a. við stuttmyndir sem fjalla um ófrískan karlmann og móður sem hrífst af kærustu sonar síns.
Iris-verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn 4. október nk. Sigurvegarinn hlýtur m.a. 25.000 pund (tæpar fjórar milljónir kr.) í verðlaunafé.