Forræðisdeila Britneyjar Spears við Kevin Federline kann þegar upp verður staðið að kosta hana sem svarar tæpum 58 milljónum króna, að því er fram kemur í dómsskjölum.
Þar kemur fram að tvær lögmannastofur hafa sent Britneyju reikninga upp á samtals 466.000 dollara, eða sem svarar 38,5 milljónum króna. Því til viðbótar hefur Britney fallist á að greiða lögfræðikostnað Kevins, sem nemur um 250.000 dollurum, eða sem svarar 20 milljónum króna.
Hæsti reikningurinn er frá lögfræðingnum Stacy D. Phillips, sem segist eiga hátt í 407.000 dollara útistandandi fyrir fjögurra mánaða vinnu, og kveðst hafa því til viðbótar afskrifað 125.000 dollara.
Skipaður dómari í máli Britneyjar þarf að samþykkja reikninga lögfræðinganna áður en þeir fást greiddir.
Aðrir lögfræðingar sem unnið hafa fyrir Britneyju og föður hennar, Jamie, hafa gefið í skyn að þeir muni reyna að koma í veg fyrir að reikningarnir frá Phillips verði samþykktir. Í næsta mánuði munu lögfræðingarnir koma til fundar við dómarann til að ræða reikningana.