Grín-spæjaramyndin Get Smart með þeim Steve Carrell og Anne Hathaway fer beina leið á topp bíólistans og hafa tæplega 7 þúsund gestir borgað sig inn á hana fyrstu fimm sýningardagana. Stóru fréttirnar á listanum eru þó þær að Mamma Mia! hefur sætaskipti við Leðurblökumanninn, en myndirnar skiptast á öðru og þriðja sætinu. Það þýðir að allt bendir til þess að Mamma Mia!, sem bætir sig töluvert á milli vikna, er líkleg til þess að skáka The Dark Knight sem vinsælasta mynd sumarsins – og yrði Ísland þá sjálfsagt eitt örfárra landa í hinum siðmenntaða heimi þar sem Blaki væri ekki sigurvegari sumarsins (þótt þetta gæti vakið efasemdir um hversu siðmenntuð við erum).
Nú hafa nefnilega 72 þúsund manns séð Mamma Mia! en „aðeins“ 60 þúsund Blaka – og virðast Meryl Streep og félagar á töluvert meiri siglingu.