Það voru ítrekuð vonbrigði yfir kvikmyndabransanum í Hollywood er ýtti Bafta-verðlaunahafanum Valdísi Óskarsdóttur í leikstjórastólinn. Hún hefur starfað við að klippa kvikmyndir í rúman áratug og segir þvílíkan farsa hafa fylgt síðustu tveimur verkefnum hennar að hún hafi séð sig tilneydda að skipta um vettvang.
„Mér hafði aldrei dottið í hug að verða leikstjóri,“ fullyrðir Valdís Óskarsdóttir en fyrsta kvikmynd hennar, Sveitabrúðkaup, verður nú samt frumsýnd í næstu viku. „Tvær síðustu bandarísku myndirnar sem ég valdi höfðu báðar gott handrit en urðu svo að algerlega vonlausum dæmum er var súrt að vinna við.“
Þar á Valdís við kvikmyndirnar Martian Child er skartaði John Cusack í aðalhlutverki og svo Vantage Point með Dennis Quaid og Forest Whitaker en þá mynd klippti Valdís með Sigvalda J. Kárasyni. Valdís bað framleiðendur Martian Child um að fjarlægja nafn sitt af myndinni eftir stöðugt ósætti þeirra við myndina er mátti rekja til þess að leikstjóri hennar endurskrifaði handritið dögum fyrir tökudag.
Valdís og Sigvaldi eyddu svo sex mánuðum í að klippa Vantage Point áður en þeim var sagt að hætta og annar klippari fenginn til þess að klára verkefnið. Svo þegar myndin kom í bíó var hún nánast nákvæmlega eins og sú útgáfa er Valdís og Sigvaldi höfðu gert.
„Eftir þetta hugsaði með mér hvort þetta væri virkilega það sem ég vildi gera eða hvort það væri kominn tími fyrir eitthvað annað. Vinna við kvikmyndir er mitt líf þannig að ég ákvað að gera Sveitabrúðkaup.“
Valdís skrifaði hugmyndina að Sveitabrúðkaupi í desember 2006. Enginn sýndi því sérstakan áhuga og hún setti hana á ís. Þegar hún svo kom heim frá London skaut hún hugmyndinni að Gísla í Vesturporti og spurði hvort þau hefði áhuga á að gera mynd þar sem leikararnir fengju að spinna texta inn í þegar tilbúinn söguþráð. „Svona á svipaðan hátt og þau unnu Börn og Foreldra. Hver myndi þróa sinn karakter og leika, og þau voru til í það.“