Heimildar- og stuttmyndahátíð í Reykjavík verður opnuð í Austurbæjarbíói á morgun, föstudaginn 22. ágúst klukkan 18. Markmið hátíðarinnar er að kynna það nýjasta og áhugaverðasta í stutt- og heimildarmyndagerð á Íslandi og í öllum heimshornum. Þetta er í sjöunda sinn sem hátíðin er haldin og stendur hún yfir í eina viku, eða til 29. ágúst. Að þessu sinni verða allar sýningar í gamla Austurbæjarbíói og verður hátíðin nú haldin í samstarfi við Menningarnótt í Reykjavík.
Auk fjölmargra íslenskra mynda verða meðal annars sýndar myndir frá Svíþjóð, Belgíu, Ísrael, Egyptalandi, Danmörku, Bandaríkjunum, Mexíkó, Rúmeníu, Úrúgvæ og fleiri löndum. Miðasala hefst í gamla Austurbæjarbíói klukkan 14 í dag, fimmtudaginn 21. ágúst, og er miðaverð 600 krónur, en aðgöngupassi á allar myndir hátíðarinnar kostar 4000 krónur. Nánari upplýsingar og dagskrá má nálgast á slóðinni shortdocs.info.