Söngvarinn Ricky Martin hefur eignast tvíburasyni en hann fékk leigumóður til þess að ganga með tvíburana. Ekki er gefið upp hver móðirin er né hvenær drengirnir fæddust eða hvað þeir hafa verið nefndir. Ætlar Martin að taka hlé frá störfum til þess að sinna drengjunum.
Í tilkynningu frá umboðsmanni Martins kemur fram að nýverið hafi Ricky Martin eignast tvíburasyni sem hann er ákaflega stoltur af. Börnin, sem leigumóðir hafi gengið með, séu heilbrigð og þau séu í fullri umsjón söngvarans.
Segir ennfremur í tilkynningunni að Ricky sé í sjöunda himni og hlakki til að takast á við föðurhlutverkið. Hann muni halda sér utan sviðsljóssins það sem eftir líður árs til þess að geta eytt tíma með börnum sínum.