Söngleikurinn Mamma Mia! nær þeim fáheyrða árangri að endurheimta efsta sæti bíólistans sjöundu viku á lista, en myndirnar sem voru á lista þegar hún var frumsýnd eru allar horfnar úr kvikmyndahúsum núna ef fáeinar þrjúbíósýningar á Kung Fu Panda eru frátaldar. Myndin er nú þegar orðin fjórða tekjuhæsta mynd allra tíma hérlendis og aðeins tímaspursmál hvenær hún nær þriðja sæti listans.
Sem stendur er Mýrin efst á listanum með 90,5 milljónir króna, næst kemur Titanic með 77 milljónir króna og loks Return of the King, þriðja Lord of the Rings-myndin, með 73 milljónir. Mamma Mia! er komin með 70,5 milljónir króna í tekjur nú þegar og allar líkur á að hún nái að minnsta kosti öðru sætinu á þessum lista áður en yfir lýkur – jafnvel því efsta.
Aðsóknartölur aftur í tímann eru nokkuð ótryggar hérlendis en þó er ljóst að einhverjar af fyrstu myndum íslenska kvikmyndavorsins sem og myndir á borð við Gone With the Wind hafa dregið fleiri áhorfendur í bíó, en Mýrin endaði í 84 þúsund manns hérlendis (miðaverð á íslenskar myndir er hins vegar hærra og því er hún efst á tekjulistanum) og Return of the King dró að tæplega 96 þúsund bíógesti árin 2003-4 og því ljóst að Mamma Mia! stefnir a.m.k. í að verða fjölsóttasta myndin hérlendis í tæp fimm ár.