Tónleikum Bjarkar Guðmundsdóttur, hljómsveitarinnar Wonderbrass og Jónasar Sen í Langholtskirkju er nýlokið. Voru þetta síðustu tónleikarnir í Volta tónleikaferð Bjarkar. Góð stemning var í kirkjunni og voru flytjendurnir klappaðir upp tvisvar.
Tónleikarnir voru órafmagnaðir og var það íslenski hluti hljómsveitar Bjarkar sem kom fram.
Lögin sem voru flutt hafa verið uppistaðan í tónleikadagskrá Bjarkar á nýafstaðinni sautján mánaða tónleikferð um heiminn.
Björk kom tónleikagestum mjög á óvart með því að taka lagið It's Oh So
Quiet í lok tónleikanna, en það lag sagðist hún ekki hafa sungið
opinberlega í sex til átta ár. Lagið er af annarri plötu Bjarkar, Post.
Tónleikarnir voru teknir upp og er upptakan ætluð til útgáfu.
Fullt var út úr dyrum enda voru einungis 300 miðar í boði.
Að sögn Jóhanns Bjarna Kolbeinssonar, blaðamanns á Morgunblaðinu sem viðstaddur var tónleikana, voru þeir gríðarlega vel heppnaðir og segir hann að Björk hafi hreinlega farið á kostum í nokkrum laga sinna.
Björk þurfti að vísu að byrja upp á nýtt í einu lagi vegna smávægilegra mistaka, en það gerði hún í ljósi þess að tónleikarnir voru teknir upp og verða gefnir út á plötu og DVD.
Björk bað viðstadda afsökunar á þessum mistökum, og var þeirri afsökunarbeiðni mjög vel tekið.
Þess má geta að rússneski auðkýfingurinn Róman Abramovítsj var meðal tónleikagesta í kirkjunni. Hann er meðal annars eigandi knattspyrnuliðsins Chelsea. Var hann í fylgd Kára Sturlusonar, umboðsmanns söngkonunnar Lay Low.
Abramovítsj mun fara af landi brott um tíu leytið í kvöld en hér hefur hann verið í sumarfríi ásamt tveimur dætrum sínum.