Breska tónlistarblaðið Q fjallar um nýja smáskífu Sigur Rósar í dag og segir að hljómsveitin hafi aldrei slegið falskan (falsettu) tón. Á smáskífunni er lagið Inní mér syngur vitleysingur, af nýlegri breiðskífu sveitarinnar.
Q fjallar um lagið í hefðbundnum upphöfnum stíl og segir, að í laginu komi vel í ljós himnesk tilfinning Sigur Rósar fyrir laglínu og ágeng kraftmikill endurtekning sé í fyrirrúmi í anda The Flaming Lips og Arcade Fire.
Breiðskífa Sigur Rósar, Með suð í eyrum við spilum endalaust, fór beint í 5. sætið á breska vinsældarlistanum og komst einnig ofarlega á lista í Belgíu, Danmörku, Noregi, Írlandi, Portúgal, Sviss, Japan og Hong Kong, svo nokkur lönd séu nefnd. Þá komst platan í 15. sæti bandaríska Billboardlistans.