Sveitabrúðkaup og Brúðguminn munu báðar verða sýndar á kvikmyndahátíðinni í Toronto, líklega virtustu kvikmyndahátíð vestanhafs ásamt Sundance. „Þetta er vonandi bara ágætis auglýsing fyrir íslenska kvikmyndagerð. Vonandi að þeir haldi samt ekki að við framleiðum eingöngu brúðkaupsmyndir,“ segir Valdís Óskarsdóttir um Kanadaförina en hún er nú að frumsýna sitt fyrsta leikstjóraverk, Sveitabrúðkaup, hérlendis.
Myndin var unnin án framleiðslustyrks frá Kvikmyndamiðstöð Íslands þar sem um er að ræða spunaverk sem farið var í án eiginlegs handrits og því þurfti fjármagn annars staðar frá. Myndin fékk þó eftirvinnslustyrk.
Valdís segir Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur, einn framleiðanda myndarinnar, hafa fundið fjármagn hjá nokkrum fjárfestum.
„Guðrún Edda hafði síðan samband við Jim Stark sem sýndi áhuga á að vera með og hafði samband við Fortisimo Films. Þeir ákváðu að kaupa myndina og eiga alheimsdreifingu á henni, mínus Norðurlönd, og keyptu myndina út á söguþráð, ekkert handrit. Það var ofboðslega gaman að einhver skyldi hafa svona mikla trú á lítilli íslenskri bíómynd að vilja kaupa hana fyrir fram.“