Danski söngvarinn og lagasmiðurinn Kim Larsen reykir ávalt á sviði á tónleikum sínum en nú er svo komið að vegna reykingabanns má hann ekki kveikja í sígarettu á næstu tónleikum sem haldnir verða í Vejle Musikteater í október.
Tónleikasalurinn er í eigu sveitafélagsins Vejle og í opinberum byggingum í eigu sveitafélaga má samkvæmt nýju reykingabannslögunum í Danmörku ekki reykja. Menningarfulltrúi Vejle staðfesti í samtali við Berlingske Tidende að bannið væri látið jafnt yfir alla ganga, jafnt listamenn og áhorfendur.
„Við verðum að tryggja að farið verði eftir lögunum. Þau gilda fyrir alla. Ef það er vandkvæðum bundið fyrir Kim Larsen þá verðum við að bæta við auka-hléi svo hann komist út til að reykja," sagði Dan Skjering.
Gesundheit macht frei
Fréttaskýrendur sjá fyrir að nú mætist stálin stinn því Larsen reykir ávalt á sviði og við það bætist að hann hefur lagt í herferð gegn reykingalögunum og vitnar þar í umdeilda áróðurstækni Nasista með slagorðinu „Til hamingju með reykingabannið - Gesundheit Macht Frei".
Varðandi deiluna í Vejle mun Kim Larsen einungis hafa gefið eitt svar:
„Gesundheit Macht Frei."