Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Moore er ekki óvanur því að valda fjaðrafoki með orðum sínum, og hefur hann nú vakið athygli með því að segja að fellibylurinn Gústav, sem stefnir á New Orleans, sé sönnun þess að Guð sé til vegna þess að bylurinn komi illa við repúblíkana, sem ætla að hefja landsfund sinn á morgun.
Blaðið The Times Picayune í New Orleans hefur þetta eftir Moore, sem bætti við að hann vonaði að sjálfsögðu að Gústav yrði engum að aldurtila.
Svo kann að fara að landsþingi Repúblíkanaflokksins, þar sem John McCain verður formlega útnefndur forsetaframbjóðandi flokksins, verði frestað vegna veðursins.
McCain sagði í viðtali í gær að það væri ekki hægt að halda þingið með pompi og prakt á meðan hörmungar gengju yfir.