Íslenska kvikmyndin Brúðguminn hefur hlotið tilnefningu til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Alls eru fimm myndir tilnefndar, ein frá hverju landi Norðurlandanna að Færeyjum og Grænlandi undanskildum. Baltasar Kormákur Samper leikstýrði myndinni.
Í fréttatilkynningu frá Grænaljósinu sem sýna mun allar tilnefndu myndirnar í Háskólabíói í Reykjavík dagana 13. og 14. september segir:
„ Alls hafa 55.000 manns séð Brúðgumann sem þykir mjög góð aðsókn fyrir Íslenska kvikmynd. Brúðguminn er nútímasaga, lauslega byggð á leikriti Anton Chekov Ivanov. Handritið var skrifað samhliða uppsetningu leikritsins á sviði og sömu leikarar fara með hlutverk í myndinni og á sviði, þar á meðal Hilmir Snær Guðnason, Margrét Vilhjálmsdóttir og Ólafur Egill Egilsson sem skrifaði handritið ásamt Baltasar Kormáki."
„Baltasar Kormákur hefur verið tilnefndur til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs á hverju ári frá stofnun þeirra árið 2005. Fyrsta árið sem framleiðandi Dísar eftir Silju Hauksdóttur, árið 2006 sem framleiðandi/handritshöfundur/leikstjóri A little Trip to Heaven og á síðasta ári sem framleiðandi/handritshöfundur/leikstjóri Mýrinnar."
Aðrar myndir sem tilnefndar eru til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár eru:
Frá Danmörku, Fyrstu árin - Erik Nietzsche - 1. hluti. leikstjóri Jacob Thuesen, handritshöfundur Lars von Trier.
Frá Finnlandi, Heimili dökku fiðrildanna. leikstjóri Dome Kaukoski, handritshöfundur Marko Leino (byggt á bók eftir Leena lander)
Frá Noregi, Maðurinn sem unni Yngvari, leikstjóri Stian Kristiansen, handritshöfundur Tore Renberg (byggt á eigin bók).
Frá Svíþjóð, Þið sem lifið, leikstjóri og handritshöfundur Roy Andersson.