Nokkrir minnisverðir hlutir úr safni Sir Fitzroy Macleans, mannsins sem talinn er vera fyrirmynd James Bond, njósnara hennar hátignar, hafa verið seldir á uppboði í Edinborg.
Hlutirnir eru meðal annars áður óséðar myndir, bréf og smásögur, auk fyrstu útgáfu Casino Royale, Moonraker, Dr. No og From Russia with love, og seldust á rúm 31.000 pund, eða um fjórar og hálfa milljón íslenskra króna.
Maclean vingaðist við Ian Fleming í seinni heimsstyrjöldinni en varð síðar þingmaður. Ian Fleming varð heimsfrægur fyrir sögur sínar af James Bond, sem talinn er byggjast á ævi Macleans, sem vann hjá mörgum sendiráðum og þótti fágaður heimsborgari, sem gat einnig látið hnefana tala, og tók hann til dæmis þátt í ótal leyniverkefnum hersins.