„Amma krefst þess að fá sinn skerf af verðlaununum,“ segir Davíð Eldur Baldursson sem hlaut í gær fystu verðlaun í ljósmyndasamkeppni mbl.is. Sigurmyndin sýnir ömmu Davíðs Eldars vökva blómin í garðinum sínum í Keflavík, svo krafa hennar á kannski rétt á sér. „Hún myndi sjálfsagt nota verðlaunin til þess að kaupa sér meira af blómum ef ég þekki hana rétt.“
Í öðru sæti varð sigurvegarinn frá því í fyrra, Tinna Stefánsdóttir, með myndina Bunan og í því þriðja Jónas Ingi Ágústsson með myndina Veiðivötn. Alls bárust yfir 18.000 myndir í keppnina frá 4.521 ljósmyndara. Verðlaunin voru ljósmyndavörur frá Nýherja.
– Hvernig varð þessi mynd til?
„Ég náði ömmu á góðu augnabliki. Ég notaði Canon EOS 30D-myndavél og síðan vann ég myndina í Photoshop og fjarlægði alla litina nema í blómunum til þess að undirstrika vægi þeirra í myndinni,“ segir Davíð Eldar. „Ég fékk myndavél í verðlaun og ég ætla að láta kærustuna mína hafa hana og reyna að fá hana til þess að taka myndir.“
– En hvað með ömmu þína, ætlarðu ekki að minnsta kosti að gefa henni blóm?
„Jú, ég geri það,“ lofar Davíð Eldar hátíðlega.