Bandaríska poppsöngkonan Britney Spears var í aðalhlutverki á verðlaunahátíð MTV sjónvarpsstöðvarinnar í Los Angeles í gærkvöldi þar sem veitt voru verðlaun fyrir bestu frammistöðuna í myndböndum. Spears fór heim þrenn verðlaun, þar á meðal fyrir myndband ársins.
Spears virtist á tímabili vera kominn í hundana. Á sömu verðlaunahátíð fyrir ári flutti hún lag og fékk hörmulega dóma fyrir flutninginn. Hún hefur síðan misst forræði yfir börnum sínum og verið svipt fjárhagslegu sjálfræði vegna lyfjaneyslu og einkennilegrar hegðunar.
Söngkonan virðist hins vegar tekið sig verulega á og leit vel út þegar hún tók við verðlaunum fyrir besta flutning konu í myndbandi, besta poppmyndbandið og myndband ársins, allt fyrir lagið Piece of Me þar sem hún skýtur föstum skotum á ljósmyndarana, sem fylgja henni hvert fótmál.
Þetta er í fyrsta skipti, sem Spears fær verðlaun á myndbandahátíð MTV en hún hefur verið tilnefnd 16 sinnum. Spears, sem er 26 ára, varð stórstjarna árið 1998 þegar hún flutti lag sitt Baby One More Time.
Aðrir verðlaunahafar á hátíðinni í nótt voru Chris Brown, sem þótti besti karlsöngvarinn í myndbandinu With You, Linkin Park sem átti besta rokkmyndbandið, Shadow of the Day. Lil Wayne sem átti besta rappmyndbandið, Lollipop. The Pussycat Dolls þóttu dansa best í myndbandinu When I Grow Up; og Tokio Hotel var besti nýliðinn.