Í yfirgefnu flugskýli á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli iðar allt af lífi þessa dagana, því þar vinna um 50 manns að tökum á íslensku splattermyndinni Reykjavík Whale Watching Massacre. Tökur hafa þegar farið fram í Hvalfirði, Reykjavíkurhöfn og á Faxaflóa, en verið er að reka smiðshöggið á tökur í Keflavík og er búist við að þeim ljúki 23. september.
Flugskýlinu hefur verið breytt í hið glæsilegasta kvikmyndaver sem er í eigu Atlantic Studios, og er t.a.m. búið að reisa leikmynd þar sem innisenur myndarinnar eru teknar. Þegar blaðamann og ljósmyndara bar að garði var verið að taka upp atriði þar sem leikkonurnar Guðrún Gísladóttir og Hanna María Karlsdóttir berjast upp á líf og dauða. Þá var einnig verið að skjóta senur með japönsku leikkonunni Nae sem er hvað þekktust fyrir að hafa leikið aðalkvenhlutverkið í stórmynd Clints Eastwoods – Letters from Iwo Jima.
Leikstjóri myndarinnar er Júlíus Kemp, en þetta er þriðja mynd hans í fullri lengd.
Reykjavík Whale Watching Massacre segir frá hópi ferðamanna sem fara í hvalaskoðun við strendur Íslands. Þegar skipstjórinn deyr af slysförum flýr hinn áhafnarmeðlimurinn á eina björgunarbátnum, og eru ferðamennirnir því einir á báti. Þeim tekst að skjóta upp neyðarblysi, en svo óheppilega vill til að þeir einu sem sjá það eru fjölskylda hvalveiðimanna sem kann ekkert sérlega vel við hvalaskoðunarfólk, svo vægt sé til orða tekið.