Ekkert lát virðist ætla að verða á ótrúlegum vinsældum hljómsveitarinnar ABBA hér á landi, jafnvel þótt 26 ár séu síðan sveitin lagði formlega upp laupana. Ástæða þessara miklu vinsælda nú er auðvitað kvikmyndin Mamma Mia!, en í henni eru lög sveitarinnar flutt hvert af öðru.
Myndin hefur notið slíkra vinsælda í íslenskum kvikmyndahúsum að jafnvel elstu menn muna ekki annað eins. Plata með lögunum úr myndinni nýtur ekki síður vinsælda, en hún er í efsta sæti tónlistans þar sem hún hefur nú setið sem fastast í nokkrar vikur, og virðist ekkert á niðurleið.
Fáir ógna vinsældum sænsku fjórmenninganna, en næst því kemst þó safnplata með úrvali laga frá tíunda áratug síðustu aldar – Ég fíla 90's. Á plötunni má finna misgóð lög frá flytjendum sem margir eru eflaust búnir að gleyma, til dæmis Bong, Faithless, Whigfield, Outhere Brothers, Scatman John, Culture Beat og Goodmen. Þó má finna nokkra gullmola inn á milli, til dæmis hið ógleymanlega lag „Informer“ með Snow.
Annars eru litlar breytingar á tónlistanum frá því í síðustu viku, aðeins ein ný plata er á topp 20. Þetta mun þó breytast fljótlega, eða þegar jólaplötuflóðið fer af stað fyrir alvöru.
Hin geðþekka hljómsveit Hjalta-lín stekkur upp um sex sæti milli vikna, fer úr áttunda sætið í annað sætið með lag Páls Óskars, „Þú komst við hjartað í mér“. Það stefnir því í harða baráttu milli Hjaltalíns og Sálarinnar um efsta sætið í næstu viku.
Þrátt fyrir nokkuð misjafna dóma virðast þeir Daníel Ágúst og Krummi í Mínus njóta töluverðra vinsælda, en hljómsveit þeirra Esja er komin í þriðja sæti lagalistans með lagið „Hit It“.
Aðeins eitt nýtt lag er meðal þeirra 20 efstu að þessu sinni, en þar er á ferðinni lagið „Me and Armini“ af samnefndri plötu Emilíönu Torrini. Líklegt verður að teljast að lagið klifri hærra á næstu vikum, enda Emilíana með allra flottustu söngkonum landsins.