Hörður Torfason hélt árlega hausttónleika sína í gærkvöldi í Borgarleikhúsinu. Þetta er 33. árið í röð sem tónleikarnir fara fram en nokkrir þeirra hafa farið fram erlendis. Miðar á tónleikana seldust upp á fáeinum dögum og því var bætt við aukatónleikum síðar um kvöldið.
Hörður sagði við 24 stundir í gær, að aldrei hafi komið til greina að fella niður tónleika þó svo að nokkrir þeirra hafi farið fram erlendis. „Að vísu var ég landflótta í nokkur ár en þá hélt ég tónleikana bara í Kaupmannahöfn.“
Hann sagði einnig margt hafa breyst á áratugunum þremur. „Fyrir 33 árum átti ég einn lítinn gítar, ekkert söngkerfi og ég var í því alveg til 1987-1988, þá eignaðist ég peninga til að kaupa mér betri gítar og söngkerfi. Svo er ég náttúrlega orðinn mun viðurkenndari í dag heldur en ég var fyrir 33 árum. Þá vildi fólk nú helst ekki koma á tónleika með mér.“