Margir af helstu stórsöngvurum þjóðarinnar koma fram á tónleikum á Hótel Nordica sunnudaginn 28. september næstkomandi. Tilefnið er styrktartónleikar Umhyggju, félags langveikra barna og mun allur ágóði tónleikanna renna óskiptur til félagsins. Meðal þeirra sem leggja málefninu liðsinni sitt má nefna Egil Ólafsson, Ragga Bjarna, Stefán Hilmarsson, Björn Jörund Friðbjörnsson, Siggu Beinteins, Friðrik Ómar og fleiri.
Arnhildur S. Magnúsdóttir jógakennari og nuddari hefur veg og vanda af skipulagningu tónleikanna en hún greindist sjálf með krabbamein árið 2001.
„Jógað hjálpaði mér gífurlega í veikindunum og þegar ég taldi mig loks tilbúna til að hefja aftur vinnu, hannaði ég námskeið fyrir krabbameinssjúka og vann svo á sambýlum bæði við jógakennslu og svæðanudd,“ segir Arnhildur sem fékk þá flugu í höfuðið stuttu síðar að stofna til styrktartónleika fyrir krabbameinssjúk og langveik börn Hún viðraði hugmyndina við Geir Ólafsson söngvara sem kom boltanum af stað.