Ásdís Rán Gunnarsdóttir, fyrirsæta og kona Garðars Gunnlaugssonar knattspyrnumanns, var á laugardag lögð inn á sjúkrahús í Búlgaríu vegna verkja í kviði.
Eftir skoðun lækna kom í ljós að hún var með töluverðar innvortis blæðingar vegna æxlis sem hafði rifið gat á eggjastokk. Ásdís var skorin upp í snatri og æxlið sem reyndist góðkynja var fjarlægt.
Þegar Morgunblaðið náði tali af Garðari sagði hann Ásdísi alla að hressast. „Uppskurðurinn gekk vel og þeim tókst að stöðva blæðinguna sem var töluverð og okkur var sagt að Ásdís hefði verið aðeins nokkrum klukkutímum frá bráðri lífshættu.“
Garðar, sem gekk nýverið til liðs við CSKA Sofia, átti að leika sinn fyrsta leik á sunnudaginn en af því varð að sjálfsögðu ekki. „Fjölskyldan hefur alltaf forgang,“ segir hann.